Framandi ágengar tegundir

Á undanförnum árum hefur flutningur tegunda út fyrir sín náttúrulegu heimkynni aukist vegna flutnings fólks og varnings. Oftar en ekki eru tegundir fluttar í ný heimkynni til ræktunar eða annarra nota. Flestar þessara tegunda hafa ekki teljandi áhrif á lífríki í nýjum heimkynnum. Örfáar verða þó ríkjandi eða ágengar og valda verulegum breytingum á starfsemi vistkerfa, t.d. með afráni, samkeppni eða kynblöndun. Þannig geta þær komið í stað innlendra tegunda sem fyrir eru. Erfitt getur reynst að snúa þessari þróun við.

Með hlýnandi loftslagi á norðurslóðum má reikna með að hegðun tegunda breytist. Sumar framandi tegundir gætu gerst ágengar þótt þær hafi ekki áður sýnt merki um slíkt. Í heiminum er aukin útbreiðsla framandi tegunda talin ein helsta ógn við líffræðilega fjölbreytni og á alþjóðlegum vettvangi hafa framandi og þá sértaklega ágengar tegundir fengið sífellt meiri athygli.

Margvíslegar rannsóknir hafa verið unnar til að kanna áhrif þeirra og hvaða möguleikar eru á því að koma í veg fyrir frekari dreifingu. Í samningnum um líffræðilega fjölbreytni er fjallað um framandi tegundir og Evrópusambandið fjallar um málaflokkinn.Einnig má nefna NOBANIS sem er samstarfsverkefni þjóða í Norður-Evrópu til þess að draga úr eða koma í veg fyrir tjón af völdum ágengra tegunda og hefur Ísland tekið þátt í verkefninu. Á heimasíðu verkefnisins má finna margs konar upplýsingar um framandi ágengar tegundir.

Á undanförnum árum hefur orðið vart aukinnar útbreiðslu nokkurra plöntutegunda hér á landi. Þar má einkum nefna alaskalúpínu og skógarkerfil en athyglinni hefur einnig verið beint að öðrum tegundum. Segja má að þessar tegundir séu fyrstu dæmin um ágengar framandi plöntutegundir sem breiðst hafa út hér á landi. Mikilvægt er að fylgjast með hegðun og útbreiðslu þessarra tegunda á landinu og grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir tjón af þeirra völdum.

Alaskalúpína og skógarkerfill í Esjuhlíðum.