Skógarkerfill

Skógarkerfill (Anthriscus sylvestris (L.) Hoffm.) á sín náttúrulegu heimkynni í mið-Evrópu og Asíu. Talið er að hann hafi borist hingað til lands skömmu eftir 1900 en hann er fyrst skráður 1927 á Akureyri. Í upphafi var skógarkerfill ræktaður í görðum.

Eiginleikar: Skógarkerfilinn, sem er af sveipjurtaætt, er hávaxinn og getur orðið 1–2 m á hæð. Lífslengd skógarkerfils er breytileg (einær‐tvíær‐fjölær) en venjulega deyr plantan að lokinni blómgun. Hann fjölgar sér með fræi en einnig með brumum á rót. Fræin eru fremur skammlíf og falla felst nálægt móðurplöntunni. Hér á landi hefur tegundin á undanförnum árum náð bólfestu í gömlum lúpínubreiðum, aflögðum túnum, vegköntum og á grasi vöxnum ár‐ og lækjarbökkum. Skógarkerfill hefur einnig breiðst út í sínum náttúrulegum heimkynnum einkum vegna meira magns af köfnunarefni í jarðvegi en hann þrífst best í frjósömum og rökum jarðvegi. Hérlendis hefur vistfræði hans lítið sem ekkert verið rannsökuð.

Áhrif: Vegna hæðar sinnar og þéttrar laufþekju þrífast lágvaxnari tegundir illa þar sem skógarkerfill hefur náð sér á strik. Allt bendir til  að kerfillinn geti viðhaldið sér lengi þar sem hann hefur náð fótfestu.

Útbreiðsla: Eftir 1940 breiddist skógarkerfill talsvert út og um 1965 var hann að finna í flestum landshlutum. Síðustu tvo áratugina hefur útbreiðslan aukist enn frekar, einkum á höfuðborgarasvæðinu, á Vestfjörðum, í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Líklegt er að það megi rekja til minnkandi beitar og hlýnandi veðurfars. Upplýsingar um úbreiðslu skógarkerfilsins eru þó takmarkaðar og líklegt er að hann sé víðar að finna en útbreiðslukort gefa til kynna. Engar upplýsingar eru um að hann vaxi ofan 400 m hæðar. Ýmsar athafnir manna hafa ýtt undir útbreiðslu hans sem er hröð meðfram vegum, girðingum og með jöðrum akra og túna. Algengt er að hann breiðist út þar sem beit hefur verið aflétt.

Frekari upplýsingar um skógarkerfilinn má finna á vef NOBANIS.

Hér á landi eru tvær tegundir kerfla, skógarkerfill og spánarkerfill. Blóm beggja tegundanna eru lítil og hvít og skipa sér í smásveipi. Laufblöðin eru fjöðruð, svipuð burknablöðum. Skógarkerfill hefur nær hárlaus blöð og fremur slétt aldin sem  eru minni en hjá spánarkerflinum. Laufblöð spánarkerfilsins eru hærð, aldin skarprifjuð og blaðstilkar eru með anísbragði. (Smellið á myndirnar til að stækka).