Alaskalúpína

Alaskalúpína (Lupinus nootkatensis Donn ex Sims) er upprunnin í Norður‐Ameríku og er talin hafa borist hingað til lands ásamt fleiri lúpínutegundum árið 1895 sem garðaplanta. Um miðbik síðustu aldar flutti Hákon Bjarnarson fyrrum skógræktarstjóri hingað til lands fræ og rætur af tegundinni frá Alaska og var þá byrjað að nýta hana til landgræðslu.

Eiginleikar: Alaskalúpína er af ertublómaætt og í samvinnu við Rhizobium rótarbakteríur bindur hún köfnunarefni (N) úr andrúmslofti sem hún nýtir sér til vaxtar en skilar því einnig til jarðvegsins þegar plöntuhlutar hennar brotna niður. Þessi eiginleiki gerir henni mögulegt að dafna þar sem jarðvegur er rýr og aðrar plöntutegundir eiga erfitt uppdráttar. Tegundin er áberandi, enda stórvaxin og ná stönglar sums staðar ríflega 1,2 m hæð. Talið er að æviskeið plantna geti verið allt að 30 ár. Tegundin framleiðir mörg fræ sem geta lifað í jarðvegi í nokkur ár en einnig eru dæmi um að hún fjölgi sér með rótarskotum. Vaxtarhraði alaskalúpínu er mikill, hún eykur frjósemi jarðvegs og þannig breytir hún því landi sem hún nemur. Vegna þessara eiginleika er alaskalúpínan öflug landgræðslujurt en á sama tíma er hún ráðandi tegund.

Áhrif: Víða á landinu hefur alaskalúpína breiðst inn á hálf- eða vel gróið land og orðið ríkjandi í gróðri. Þar sem alaskalúpínan nær sér á strik breytir hún skilyrðum í jarðvegi með bindingu köfnunarefnis, myndar þéttar breiður og gjörbreytir gróðurfari. Þær tegundir sem fyrir voru hörfa flestar og þekja þeirra minnkar til muna en helst eru það skuggaþolnar og áburðarkærar grastegundir sem dafna í breiðunum. Þar sem alaskalúpínu er sáð eða nemur land á mjög gróðursnauðum og rýrum svæðum, eykst frjósemi jarðvegs og tegundum getur fjölgað.

Ýmsar vangaveltur hafa verið um hvort, hvernig eða hvenær alaskalúpína hörfi af því landi sem hún breiðist um. Dæmi eru um að alaskalúpína taki að hörfa eftir 15–20 ár en einnig að hún hafi viðhaldist í 40 ár og lítið látið á sjá. Í þeim tilvikum sem alaskalúpína hefur hörfað er algengast að þar taki við blómríkt graslendi blandað elftingum en nokkur blæbrigðamunur getur verið á því.

Útbreiðsla: Útbreiðsla alaskalúpínu var lengi vel takmörkuð en hún hefur aukist mikið, einkum eftir 1990. Nú er hún orðin mjög útbreidd á landinu. Þessar breytingar má rekja til minnkandi sauðfjárbeitar í landinu eftir 1980, aukinnar notkunar alaskalúpínu til landgræðslu og skógræktar og vegna gróðursetninga og sáninga á vegum áhugamanna. Hún er víða við þéttbýlisstaði og á skógræktar- og land­græðslu­svæðum en einnig þar sem land er friðað eða sauðfjárbeit lítil. Hún finnst einnig til fjalla og inni á hálendinu.

Frekari upplýsingar um alaskalúpínuna má finna á vef NOBANIS.

Alaskalúpína er stórvaxin planta, allt að 1,2 m að hæð. Blöðin eru langstikluð og fingruð. Blómin eru fjólublá og eru mörg saman í löngum klasa. Lúpínan líkist engri annarri plöntu hér á landi. (Smellið á myndirnar til að stækka).