Eyjafjarðarsveit

Í Eyjafjarðarsveit hefur skógarkerfill víða lagt undir sig stór svæði í lækjargiljum, vegköntum, skurðruðningum, skjólbeltum, aflögðum ökrum, í mýrum neðan Staðarbyggðar og á svæðum sem ekki eru slegin. Á nokkrum sveitabæjum eru allstórar breiður auk þess sem stakar plöntur má finna á víð og dreif um nánast allt sveitarfélagið.  Vorið 2007 ákvað Umhverfisnefnd sveitarfélagsins  að hefja undirbúning að átaksverkefni með það að markmiði að stemma stigu við útbreiðslu skógarkerfils enda töldu landeigendur sig þá vera farna að bera tjón af völdum hans.

 

Tengsl við íbúa: Landeigendum var kynnt aðgerðaráætlun bæði á fundum og með bréfpósti þar sem farið var fram á samstarf þeirra í þessu átaksverkefni. Í upphafi lagði sveitarfélagið til eitrið en landeigendur voru beðnir um að leggja fram vinnuframlag við sjálfa eyðinguna. Það fyrirkomulag gekk nokkuð vel en á þriðja ári átaksins var sú ákvörðun tekin af Umhverfisnefnd að eitra í öllu sveitarfélaginu íbúum að kostnaðarlausu þó áfram væri óskað eftir framlagi íbúa t.d með vinnu. Þannig átti að tryggja að örugglega væri eitrað á þeim stöðum sem þyrfti og eins átti verktaki auðveldara með að hafa yfirsýn yfir verkið.

Aðgerðir: Aðgerðirnar fólust í því að hefta frekari dreifingu á skógarkerflinum og ráðast í kjölfarið á opin svæði þar sem miklar breiður af kerflinum var að finna. Sótt var um styrki til verkefnisins í mögulega sjóði og upplýsinga aflað um þær aðferðir sem best væri að nota við eyðingu á skógarkerflinum. Ráðinn var verktaki til að hafa umsjón með verkinu og samstarfs var leitað við sérfræðing á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands um faglegar leiðbeiningar og úttektir. Vorið 2008 hófst svo átaksverkefnið formlega. Verktaki gerði nokkrar tilraunir varðandi eyðingaraðferðir sem fólust annars vegar í slætti á kerflinum og hins vegar í eitrun með gjöreyðingarlyfinu Clinic (sem er Roundup-lyf).

Árangur: Þegar þessi orð eru skrifuð er fjórða ár átaksins að hefjast. Skemmst er frá því að segja að slátturinn skilaði ekki miklum árangri og síðustu ár hefur einungis verið eitrað fyrir skógarkerflinum. Árangur eftir þrjú ár er nokkuð góður en þó er hann mismunandi eftir svæðum. Reynsla okkar er að þegar hægt er að eitra plöntuna á 1. og 2. ári, áður en hún verður kynþroska, næst bestur árangur. Þar sem skógarkerfilinn hefur vaxið og sáð sér í friði ár eftir ár með ógrynni af fræjum verður tíminn og reynslan að leiða í ljós hversu langan tíma tekur að uppræta hann. Á svæðum sem nú hafa verið eitruð í þrjú ár er skógarkerfillinn horfinn að mestu og í staðinn kominn frumframvindugróður, s.s. elfting, njóli, fíflar og arfi. Það er von þeirra sem að þessu verkefni standa að með þessu átaki verði hægt að útrýma skógarkerflinum að mestu úr sveitarfélaginu og í framhaldinu bregðast við einstökum plöntum sem kunna að skjóta upp kollinum í framtíðinni.