Hrísey

Norðurhluti Hríseyjar er á Náttúruminjaskrá vegna fjölskrúðugs gróðurs og mikils fuglalífs. Árið 2006 lýsti Náttúruverndarnefnd Akureyrarbæjar yfir áhyggjum af útbreiðslu óæskilegra plantna í bæjarlandi Akureyrar og í Hrísey.  Í framhaldi af því var ákveðið að kanna gróðurfar sérstaklega í Hrísey og sá Náttúrufræðistofnun Íslands um þá vinnu. Frá árinu 1959 hefur norðurhluti Hríseyjar verið friðaður fyrir beit og öll eyjan frá 1974. Skógrækt og uppræðsla hófst einnig í eyjunni 1959 og þá var komið inn með alaskalúpínu og hefur hún breiðst mikið út.  Kannanir á gróðurfari sýna að á þessum árum hefur lúpína farið yfir lítt gróna mela, vel gróna lyngmóa og graslendi og breytt mjög þeirri tegundasamsetningu sem fyrir var. Skógarkerfill hefur einnig víða skotið sér inn í lúpínubreiður og einnig finnast breiður þar sem hann er nánast einráður. Þessar breytingar ógna því gróðurfari sem fyrir er og að sama skapi þeim fjölbreytileika fugla sem þar finnst. Sem dæmi má nefna að eitt þéttasta rjúpnavarp á landinu er að finna í Hrísey og eru ýmsir mófuglar áberandi.

Árið 2007 hófst verkefni á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Akureyrarbæjar sem fólst í því að kanna hvort stöðva mætti dreifingu ágengra tegunda í Hrísey. Í ljós kom að sláttur virðist hafa lítil sem engin áhrif á skógarkerfil en honum má eyða með eiturefnum líkt og Roundup. Sé alaskalúpína slegin fyrir blómgun er hægt að eyða plöntunni. Einnig er mögulegt að stjórna lúpínunni með beit en í Hrísey eru hömlur á beit og það því nokkrum vandkvæðum háð.