Skaftafell og næsta nágrenni

Alaskalúpínu var plantað og sáð í rofabörð í Morsárdal í Skaftafelli um miðja tuttugustu öldina í þeim tilgangi að flýta fyrir uppgræðslu. Í kjölfar beitarfriðunar á svæðinu og aurskriðu sem féll árið 1982 hefur hún breiðst hratt út. Aðalbreiðan er á aurunum neðan við Bæjarstaðarskóg en lúpínan er einnig í hlíðum ofan skógarins og í auknum mæli vestan hans og víðar má finna bletti. Stakar lúpínuplöntur er t.d. að finna niður með Morsánni og hún er farin að sjást á eyrum undir Skeiðarárbrúnni. Allstórar breiður eru einnig á eyrum framan við Skaftafellsjökul og hún er einnig nokkuð áberandi framan við Svínafellsjökul og milli Virkisjökuls og Falljökuls.


Tengsl við íbúa: Bændur í Víðihlíð í Svínafelli hafa tekið þátt í beitartilraun í Morsárdal frá árinu 2005. Árið 2010 var samningur endurnýjaður til tveggja ára með það að markmiði að fylgjast betur með árangri tilraunarinnar þar sem beitarhólfið er til staðar. Sumarið 2009 varð Morsárdalur, sem hafði verið lokaður af frá sauðfé utan af Skeiðarársandi, skyndilega óvarinn fyrir ágangi búfjár þegar Skeiðará breytti um farveg og lokar nú ekki lengur leiðinni inn dalinn. Nokkuð var um að kindur slæddust inn í Morsárdal og var samkomulag við bændur um að sækja þær á haustin en einnig smöluðu landverðir nokkrum sinnum.

 
Aðgerðir: Skömmu eftir 1990 stóð þáverandi Náttúruverndarráð fyrir því að alaskalúpína var slegin í þjóðgarðinum í Skaftafelli. Síðan þá hefur verið reynt að sporna við lúpínunni með slætti og einnig beit. Lúpínan er þó enn mjög öflug innan þjóðgarðsins og hefur breiðst talsvert út eins og kemur fram í mælingum á útbreiðslu lúpínunnar í Morsárdal frá árinu 2002. 

Árið 2005 hófst beitartilraun í um 19 hektara beitarhólfi framan við Bæjarstaðarskóg. Þar hafa verið um 25 ær með lömbum frá því snemma á vorin og fram eftir sumri. Markmiðið var að kanna hvort fjárbeit geti heft lúpínu á svæðinu. Framkvæmd tilraunaverkefnisins hefur verið í höndum starfsmanna þjóðgarðarins, landgræðslufulltrúa suðausturlands og bænda í Svínafelli II.

Frá árinu 2009 hefur einnig verið unnið markvisst að því að hefta útbreiðslu lúpínunnar í Morsárdal utan beitarhólfsins og er sú vinna á vegum Vatnajökulsþjóðgarðs. Verkefnið var skipulagt þannig að sumarið 2009 gengu sjálfboðaliðar frá Umhverfisstofnun allan dalinn milli göngubrúa og skráðu staðsetningu þeirra lúpínuplantna sem fundust á leiðinni (utan aðalbreiðunnar) og tóku þær upp með rótum. Sumarið 2010 var farið aftur á merktu staðina og allar plöntur fjarlægðar. Einnig voru gerðar ýmsar tilraunir með slátt í jaðri breiðunnar sjálfrar og slegið var framan við Skaftafellsjökul.


Árangur: Eftir að beitartilraunin hófst hafa verið teknar myndir innan og utan beitarhólfsins á haustin til að greina sjáanlegan breytileika í þekju lúpínunnar. Helsti munurinn á gróðri innan og utan beitarhólfsins er sá að mun minni sina er innan hólfsins en utan. Þá eru birkiplöntur nagaðar upp í rúmlega meters hæð innan hólfsins. Til að reyna að sporna við því var ákveðið að breyta tímanum sem kindur eru í hólfinu þ.e. að þær koma fyrr í það á vorin og eru teknar fyrr úr því á sumrin. Vorið 2010 voru lögð út nokkur snið til að bera saman tegundafjölbreytni og afkomu lúpínuplantna og birkiplantna innan og utan girðingar. Þar sem svo skammt er síðan hafist var handa við að fjarlægja lúpínuplöntur í dalnum utan aðalbreiðunnar er ekki komin nein áþreifanleg niðurstaða um árangur þeirra aðgerða.