Stykkishólmur

Árið 2010 hóf Stykkishólmsbær aðgerðir gegn ágengum plöntum á öllu landi sveitarfélagsins. Aðdragandi málsins er sá að haustið 2007 fékk Stykkishólmsbær Náttúrustofu Vesturlands til liðs við sig til að gera úttekt á ágengum plöntutegundum í landi sveitarfélagsins í kjölfar athugasemda frá íbúum. Haustið 2009 kom út skýrsla um útbreiðslu fjögurra tegunda sem eru eða gætu orðið ágengar í bæjarlandinu, þ.e. alaskalúpínu, skógarkerfils, spánarkerfils og bjarnarklóar, og mögulegar aðgerðir gegn þeim. Land Stykkishólmsbæjar er um 10 km2 og var alaskalúpína allútbreidd á svæðinu en skógarkerfill og spánarkerfill mynduðu hér og þar litlar breiður en oftast var um stakar eða fáar plöntur að ræða. Bjarnarkló fannst á fáeinum stöðum. Í skýrslunni var lagt til að ráðast yrði strax í langtímaverkefni sem fæli í sér aðgerðir gegn öllum tegundunum og samþykkti bæjarstjórn að hefja aðgerðir sumarið 2010.

 

Tengsl við íbúa: Væru plönturnar í einkagörðum var óskað eftir leyfi eigenda til að fjarlægja þær. Án leyfis var ekki frekar aðhafst en garðeigendur voru almennt mjög jákvæðir og veittu fúslega leyfi. Í flestum tilfellum var auðsótt að fjarlægja kerfil úr görðum en ekki í öllum tilfellum að fá leyfi til að fjarlægja bjarnarkló.

Starfsmenn Náttúrustofu Vesturlands birtu reglulega pistla um ágengar plöntur, líffræði umræddra tegunda og framgang verkefnisins á heimasíðu Náttúrustofunnar og í bæjarblaðinu Stykkishólmspóstinum, sem kemur út vikulega. Þar var einnig óskað eftir athugasemdum og ábendingum íbúa, sem þó voru fáar og minni háttar.

 

Aðgerðir: Undirbúningur aðgerða, sem leiddur var af Náttúrustofu Vesturlands, hófst á vormánuðum 2010. M.a. var leitað til sérfræðinga um landgræðslu og ágengar plöntur frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Landgræðslu ríkisins, Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskóla Íslands. Þessir aðilar skoðuðu aðstæður og ráðlögðu um aðgerðir á fundi með heimamönnum í maí.

Stykkishólmsbær réði þrjá starfsmenn árið 2010 í fullt starf frá júní-ágúst, þar af einn hópstjóra, en auk þess tóku þrettán sjálfboðaliðar frá SEEDS þátt í aðgerðunum um mitt sumar, hver þeirra í tvær vikur. Aðgerðirnar fólust einkum í slætti á opnum svæðum með vélorfum en stakar plöntur voru stungnar upp eða reyttar. Í nokkrum tilfellum voru plöntur fjarlægðar úr einkagörðum þar sem leyfi voru veitt.  Lúpína var slegin einu sinni í bæjarlandinu á blómgunartíma og kerflar þrisvar. Bjarnarkló var ávallt stungin upp.

Síðla í júní var efnt til sameiginlegs lúpínusláttarkvölds í einu hverfi bæjarins, þar sem lúpína hefur reynst sérlega aðgangshörð. Sveitarfélagið útvegaði sláttuorf og tók fjöldi bæjarbúa þátt í vel heppnuðu vinnukvöldi í einmunablíðu, sem endaði með sameiginlegri grillveislu í boði bæjarins.

 

Árangur: Gert er ráð fyrir að nokkur ár geti liðið þar til verulegur árangur næst af verkefninu. Þegar farið var um svæðin í sumarlok 2010 virtist allur kerfill lifandi en var eins og gefur að skilja mjög lágvaxinn. Sums staðar virtist lúpína hafa drepist við slátt og víða voru nær eingöngu ungplöntur sem náðu sér á strik þegar skuggi stærri plantnanna var ekki lengur fyrir hendi. Á öðrum svæðum náði lúpínan sér verulega á strik að nýju eftir slátt. Í fljótu bragði virtist árangurinn tengjast tímasetningu sláttar og staðbundnum aðstæðum. Endurvöxtur lúpínu var mestur á þeim svæðum sem slegin voru fyrst, þar sem jarðvegur var ekki of þurr og skjól var fyrir norðanátt.

 

Skráning og rannsóknir: Í tengslum við aðgerðirnar var í upphafi ákveðið að skrá allar aðgerðir, þ.e. hvar þær fóru fram, hversu margir unnu að þeim á hverjum tíma og hversu langan tíma aðgerðir á hverjum stað tóku. Út frá þessum gögnum má reikna meðalafkastagetu starfsmanna í aðgerðum gegn hverri tegund miðað við aðferðafræði og aðstæður í Stykkishólmi. Þessar upplýsingar eru mikilvægar við frekari mótun verkefnisins og aðgerðir á öðrum svæðum.

Samhliða aðgerðunum var hrundið af stað rannsóknaverkefni í bæjarlandinu þar sem sérfræðingar frá Landgræðslunni og Landbúnaðarháskólanum munu bera saman árangur af eitrun og slætti á alaskalúpínu og áhrif þeirra á annan gróður í reitunum. Náttúrufræðistofnun leggur til greiningu á gróðurfari út frá loftmyndum. Mannfræðingur frá Háskóla Íslands heimsótti Stykkishólm þrisvar sumarið 2010, þar sem hann tók viðtöl við aðstandendur verkefnisins og aðra íbúa um væntingar og viðhorf þeirra til verkefnisins. Viðtölin mynda grundvöll til að fylgjast með mögulegum breytingum á viðhorfunum þegar líður á verkefnið.