Veiðivötn

Alaskalúpína hefur vaxið í Veiðivötnum um árabil. Hún hefur fundist meðfram kvíslinni milli Grænavatns og Ónýtavatns, við Slýdrátt, við Snjóölduvatn og víða á skálasvæðinu. Útbreiðslan á hverjum stað hefur ekki verið mjög mikil, en ekki eru til neinar mælingar á útbreiðslunni. Á árunum 2002-2003 var byrjað að reyta lúpínuna upp af þessum svæðum þegar hún var í blóma og klippa ofan af henni á stöðum þar sem ekki var hægt að reyta. Þó að hart hafi verið gengið að henni er hún samt sem áður til staðar og er nauðsynlegt að halda aðgerðum áfram þangað til sigur er unninn.

Lúpínan hefur ekki borist á svæðið af sjálfsdáðum og er því mikilvægt að minna á að skv. reglugerð um innflutning, ræktun og dreifingu útlendra plöntutegunda er með öllu óheimilt að dreifa alaskalúpínu ofan 500 m h.y.s. og fellur því allt Veiðvatnasvæðið, sem er í um 600 m h.y.s., undir þessa reglugerð.