Hugtök

  • Innlend (e. native): tegund innan náttúrulegs útbreiðslusvæðis, þ.e. tegund sem hefur þróast þar eða komist þangað með náttúrulegum leiðum.
  • Framandi tegund (e. alien species): er  dýr, planta eða örvera sem hafa verið flutt út fyrir heimkynni sín. Á þetta við flutning á hvers konar hluta lífverunnar sem getur lifað og fjölgað sér, svo sem fræ, egg eða stilkingar.
  • Ágeng (e. invasive): tegund sem ógnar líffræðilegri fjölbreytni. Tegundin dreifir sér hratt og mikið og er líkleg til að valda efnahagslegu eða umhverfilegu tjóni eða er skaðleg heilsufari manna.
  • Framandi ágeng tegund (e. alien invasive species): er skilgreind sem framandi tegund sem ógnar líffræðilegri fjölbreytni.
  • Líffræðileg fjölbreytni (e: biological diversity): Breytileiki meðal lífvera á öllum skipulagsstigum lífs, þar með talin öll vistkerfi á landi, í sjó og ferskvatni og vistfræðileg tengsl þeirra. Hugtakið nær til fjölbreytni innan tegunda, milli tegunda og í vistkerfum.

    Ísland varð aðili að Ríó-samningi Sameinuðu þjóðanna árið 1992 en samkvæmt honum skal tryggja vernd líffræðilegrar fjölbreytni og sjálfbæra nýtingu líffræðilegra auðlinda. Ennfremur skal tryggja hæfilegan aðgang að erfðaauðlindum og sanngjarna og réttláta skiptingu þess hagnaðar sem stafar af nýtingu þeirra. Samningurinn gerir því ráð fyrir að maðurinn sé hluti af náttúrunni og að við nýtum okkur auðlindir hennar en jafnframt er okkur skylt að huga að því hvaða áhrif það hefur á vistkerfi.

    Á alþjólegum vettvangi er viðurkennt að líffræðileg fjölbreytni jarðar fer hnignandi, margar tegundir hafa horfið á undanförnum áratugum og fjöldi tegunda er í útrýmingarhættu. Því er nauðsynlegt að spyrna við fótum enda er viðhald fjölbreytninnar einn af hornsteinum sjálfbærrar þróunar. Helstu orksakir þessarar hnignunar eru raktar til þess að búsvæði hafa glatast, ofnýtingu tegunda, framandi ágengra tegunda, mengunar og loftlagsbreytinga.