Eitrun

Á almennum markaði má finna mikinn fjölda efna til eyðingar á plöntum. Efnin eru af ýmsum gerðum og flest þeirra sértæk. þ.e. drepa ákveðinn flokk plantna (grös eða blómplöntur) eða drepa plöntuna eftir mismunandi leiðum. Efnin eru líka mishættuleg mönnum og öðru dýralífi.

Þó svo að notkun eiturefna sé áhrifarík, og ódýr aðferð til eyðingar á plöntum, ber að beita henni af ýtrustu varúð. Ávallt skal líta á þessa leið sem neyðarúrræði. Leita skal til fagaðila áður en hafist er handa.

Notkun illgresiseiturs í landbúnaði í nágrannalöndum okkar er mjög mikil. Algengt er að árlega séu akrar úðaðir með efnum í nokkur skipti á ári. Hættan á umhverfisspjöllum vegna eiturnotkunar við slíkar aðstæður er mjög mikil. Þó það dragi ekki úr alvarleika málsins, þá er mikilvægt að hafa í huga að við eyðingu á alaskalúpínu og skógarkerfli hér á landi ætti að nægja að úða í nokkur skipti og ólíklegt er að umhverfisspjöll verði veruleg. Það skal þó tekið fram að þekking okkar á hversu oft þarf að úða til að eyða tegundunum fullkomlega er takmörkuð og mikilvægt er að beita öðrum aðferðum samhliða.

Meðhöndlun: Plöntueitur er yfirleitt leyst upp í vatni og úðað yfir þann gróður sem á að eyða. Allskyns tól og tæki finnast til að úða plöntur, allt frá litlum handvirkum úðunarbrúsum til stórvirkra vinnuvéla. Snertidreifarar (e: weed wipers) smyrja efninu á plönturnar t.d. með svampi og er þetta algeng aðferð erlendis til að beita á plöntur sem ná ákveðinni hæð án þess að efnið berist á aðrar lægri. Þessi aðferð hentar vel þar sem er mjög vindasamt því efninu er ekki úðað.

Glyphosate: Af öllu því illgresiseitri sem notað er í heiminum í dag er glyphosate langalgengast. Glyphosate er breiðvirkt vatnsleysanlegt efni sem hefur verið notað þó nokkuð hér á landi. Það er framleitt undir ýmisum heitum, t.d. Roundup og Clinic og eru í hættuflokki C. Efnið drepur allan grænan gróður sem það kemst í snertingu við. Glyphosate var fyrst skráð árið 1974 í Bandaríkjunum og hefur valdið byltingu í ræktunartækni um allan heim. Glyphosate stöðvar myndun þriggja amínósýra sem einungis eru framleiddar af plöntum og hópi örvera og hafa því eingöngu áhrif á þær. Örfáar tegundir plantna hafa þróað með sér ónæmi gegn efninu en með erfðatækni hafa verið þróuð afbrigði ýmissa nytjajurta sem hafa aukið eða algjört þol gegn því. Efnið er fosfórsamband og binst leirögnum í jarðvegi mjög auðveldlega og verður óvirkt um leið. Langtímaáhrif af efninu eru engin svo vitað sé. Fáar rannsóknir sýna neikvæð áhrif á dýralíf og áhrif á fólk er ekki þekkt. Efnið er ekki talið krabbameinsvaldandi.

Nánar má lesa um glyphosate í greinargerðinni Advantages and disadvantages by using glyphosate sem stýrihópurinn fékk Ole Kragholm Borggaard prófessor við Kaupmannahafnarháskóla til að taka saman. Stýrihópurinn fékk einnig Jón Guðmundsson plöntulífeðlisfræðing til að taka saman greinargerð, Tillögur að vinnulagi sem beita má við eyðingu á lúpínu og skógarkerfli með illgresiseyðum, um framboð ýmissa efna og mismunandi verkun þeirra.