Lög og reglur

Tilgangur náttúruverndar er m.a. hindra spjöll, gæta réttar afkomenda og koma í veg fyrir útdauða tegunda. Til að ná þessum markmiðum er mikivægt að hafa yfirsýn og stjórn á landnýtingu. Í gegnum íslensk lög og alþjóðlega samninga hefur íslenska ríkið skuldbundið sig til að vernda náttúru landsins og stuðla að sjálfbærri nýtingu lífríkisins.

Í lögum um náttúruvernd segir í 1. grein að: „Lögin eiga að tryggja eftir föngum þróun íslenskrar náttúru eftir eigin lögmálum, en verndun þess sem þar er sérstætt eða sögulegt”. Í 41. grein laga um náttúruvernd er fjallað um innflutning, ræktun og dreifingu lífvera. Þar kemur fram að ráðherra geti veitt leyfi fyrir innflutningi, ræktun og dreifingu lifandi framandi lífverum. Samkvæmt þessu ákvæði þarf því leyfi ráðherra til að dreifa framandi lífverum í náttúru Íslands. Með stoð í fyrrnefndri grein setti ráðherra reglugerð um innflutning, ræktun og dreifingu útlendra plöntutegunda. Markmið reglugerðarinnar er að koma í veg fyrir að útlendar eða framandi plöntutegundir valdi óæskilegum breytingum á líffræðilegri fjölbreytni í íslenskum vistkerfum.  Í reglugerðinni er skilgreint hvað skal teljast innlend tegund:

  • Innlend tegund: Allar tölusettar tegundir í Flóru Íslands, 3. útgáfu frá 1948, og plöntur á lista yfir íslenskar plöntutegundir, sbr. ákvæði til bráðabirgða.
  • Útlend tegund: Allar aðrar plöntutegundir en innlendar tegundir.

Samkvæmt framangreindu teljast því alaskalúpína og skógarkerfill sem útlend eða framandi tegund.  Í reglugerðinn segir jafnframt að öll ræktun útlendra tegunda hér á landi er óheimil á friðlýstum svæðum, á landslagsgerðum er njóta sérstakrar verndar, þ.e. samkvæmt 37. gr. laga um náttúruvernd, og alls staðar ofan 500 metra hæðar yfir sjó. Umhverfisstofnun getur veitt undanþágu frá þessu ákvæði að fenginni umsögn sérfræðinganefndar.  Rétt er að benda á að verið er að endurskoða lög um náttúruvernd og fyrir liggja drög að breytingum á 41. gr. laganna.

Lög um náttúruvernd byggja á samningi um líffræðilega fjölbreytni sem Ísland er aðili að. Samkvæmt honum skal hver samningsaðili koma í veg fyrir að fluttar séu inn framandi tegundir sem ógna vistkerfum, vistgerðum eða tegundum eftir því sem hægt er en einnig að takmarka eða uppræta þær sem fyrir eru. Á grundvelli þessa samnings hafa verið gefnar út leiðbeinandi reglur um ágengar framandi tegundir. Þar er áréttað að ágengar framandi tegundir séu eitt af því sem helst ógni líffræðilegri fjölbreytni, einkum í vistkerfum sem eru landfræðilega og þróunarlega einangruð, og að hættan sem af þeim stafi kunni að aukast vegna aukinnar heimsverslunar, samgangna, ferðamennsku og loftslagsbreytinga.  Íslenska ríkisstjórnin sett fram Stefnumörkun Íslands um framkvæmd Samningsins um líffræðilega fjölbreytni en þar er m.a. fjallað um aðgerðir til að takmarka dreifingu framandi ágengra tegunda.

Ísland er þátttakandi í ýmsum alþjóðlegum samningum er fjalla um vernd lífríkis. Auk samnings um líffræðilega fjölbreytni má nefna Bernarsamningur um villt dýr og plöntur sem einkum horfir til verndunar tegunda og lífsvæða og  Ramsarsamning um votlendi.   Einnig er ýmis samvinna í gangi milli landa sem lýtur að vernd tegunda og lífríkis, má þar nefna NOBANIS verkefnið sem hefur það markmið að draga úr tjóni af völdum ágengra tegunda í Norður-Evrópu.