Stýrihópur

Haustið 2009 fól umhverfisráðherra landgræðslustjóra og forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands að gera áætlun um aðgerðir til að stemma stigu við útbreiðslu alaskalúpínu og skógarkerfils. Sett var á stofn nefnd skipuð starfsmönnum beggja stofnananna.

Nefndin skilaði af sér skýrslu Alaskalúpína og skógarkerfill á Íslandi. Útbreiðsla, varnir og nýting (pdf skjal) þar sem settar voru fram upplýsingar um útbreiðslu og einkenni tegundanna og tillögur um hvernig draga mætti úr frekari dreifingu þeirra. Nefndin lagði meðal annars til að sett yrði á laggirnar aðgerðastjórn sem sjái um samræmingu aðgerða við kortlagningu á útbreiðslu, varnir og upprætingu alaskalúpínu og skógarkerfils.

Að fengnum þessum tillögum skipaði umhverfisráðherra sumarið 2010 stýrihóp undir formennsku fyrrnefndra stofnana. Megin áhersla hópsins er á friðlýst svæði og miðhálendið og hlutverk hans er:

  • Að móta og samræma aðgerðir við kortlagningu á útbreiðslu alaskalúpínu og skógarkerfils.
  • Að taka saman upplýsingar um tegundirnar sem nýtast almenningi og öðrum vörslumönnum lands.
  • Að gera tillögur um varnir og upprætingu.

Friðlýst svæði og svæði yfir 400 m h.y.s. eru hér afmörkuð. Smellið á myndina til að stækka.